Haustdagskrá bókasafnsins

Nú þegar sumri hallar og líða fer að haustdögum fer rútínan aftur í gang. Haustdagskrá bókasafnsins hófst formlega í vikunni sem leið þegar fastir viðburðir tóku við af sumarlestri og ritlistarnámskeiðum. Fyrsta fjölskyldustund vetrarins var á báðum bókasöfnum bæjarins laugardaginn 2. september með töfrandi Harry Potter ratleik á aðalsafni og Valli var vel falinn á Lindasafni. Bókasafnsdagurinn var svo haldinn hátíðlegur föstudaginn 8. september til að minna á mikilvægi bókasafna í samfélaginu og fagna því góða starfi sem þar er unnið.

Vikan á bókasafninu hefst á slökunarjóga í hádeginu á mánudögum. Heilahristingur, heimanámsaðstoð fyrir grunnskólanema, verður áfram á aðalsafni á þriðjudögum og færir sig svo í útibú bókasafnsins, Lindasafn, á miðvikudögum. Heimanámsaðstoðin er ókeypis og þar er engin mætingarskylda, en kennari er á staðnum til að aðstoða nemendur við heimanámið. Slökunarjóga verður í hádeginu alla mánudaga, hannyrðaklúbburinn Kaðlín prjónar, heklar og margt fleira alla miðvikudaga í vetur og bókmenntaklúbburinn Hananú! hittist annan hvern miðvikudag frá og með 20. september.

Nánari upplýsingar um viðburði má finna á Facebook-síðum bókasafnsins og í síma 441 6800.