Heilahristingur í upphafi skólaárs

Bókasafn Kópavogs mun í vetur bjóða nemendum í grunnskólum Kópavogs heimanámsaðstoð líkt og undanfarin ár, en aðstoðin hófst í síðustu viku þegar kennsla í grunnskólum hófst. Verkefnið er samstarfsverkefni Kópavogsdeildar Rauða krossins á Íslandi og bókasafnsins og mun Rauði krossinn leggja til sjálfboðaliða ef með þarf og aðsókn verður mikil. Aðstoðin kallast í daglegu tali Heilahristingur og verður hún tvisvar í viku, annars vegar á aðalsafni á þriðjudögum kl. 14:30-16:30 og hins vegar á Lindasafni á miðvikudögum kl. 14:30-16:30. Nemendur mæta með heimalærdóm og grunnskólakennari verður á staðnum nemendum til aðstoðar. Nemendur þurfa ekki að skrá sig í heimanámsaðstoðina, hún kostar ekkert og það er engin mætingarskylda. Ágústa Bárðardóttir, grunnskólakennari og umsjónarmaður heimanámsaðstoðarinnar, segir að bókasafnið hafi á hverju hausti reynt eftir fremsta megni að auglýsa þessa þjónustu vel inni í grunnskólunum og koma henni á framfæri eins og hægt er. Á síðasta ári var lögð sérstöka áhersla á að ná til nýbúa og barna af erlendu bergi brotnu. Nemendur eru hvattir til að nýta sér aðstoð grunnskólakennara utan hefðbundins skólatíma.

Áður birt  14. september í Kópavogspóstinum