Höfundar bjóða til stofu á Bókasafni Kópavogs

Bókasafn Kópavogs býður annað árið í röð höfundum að koma að kynna bækur sínar á safninu. Send var tilkynning til höfunda um að upplestraraðstaða væri í boði og þeir sem gripu gæsina fengu úthlutað plássum á dagskrá. Úr varð skemmtileg blanda nýliða og reyndari höfunda sem fást við allar bókmenntagreinar – fræðibækur, smásögur barnabókmenntir, skáldsögur og ljóð og ljóðaþýðingar. Þrettán höfundar munu dreifast á þrjár dagsetningar, þriðjudaginn 5. desember, fimmtudaginn 7. desember og þriðjudaginn 12. desember. Dagskráin hefst alltaf kl. 16:30 og stendur í rúma klukkustund.

Það er okkur á Bókasafni Kópavogs mikils virði að geta boðið rithöfundum vettvang til að koma verkum sínum á framfæri og við gleðjumst yfir þeim mikla áhuga sem höfundar sýna á því að miðla nýjum sögum hér á safninu.

Nemendur úr Tónlistarskóla Kópavogs munu flytja jólalög á safninu frá kl. 16:00 alla upplestrardagana og kaffi og piparkökur verða í boði fyrir gesti. Verið velkomin á notalega jólastund á Bókasafni Kópavogs.