Lestrarganga

Lestrarganga í Kópavogi er samstarfsverkefni Barnabókaseturs Íslands og Bókasafns Kópavogs og markar hún leiðina frá Leikskólalundi við Digraneskirkju í gegnum Kópavogsdalinn að aðalsafni Bókasafns Kópavogs.

Barnabókasetrið hafði fyrir nokkrum árum forgöngu um að varða 3 km langa gönguleið í Akureyrarbæ bókmenntatextum fyrir alla fjölskylduna þaðan sem hugmyndin er fengin.

Útfærslan var sú að letra kafla úr þeim íslensku barnabókum sem þjóðinni eru hvað kærastar á járnspjöld sem líkjast bókaropnum. Járnbókum þessum er svo komið fyrir á ljósastaurum í þægilegri lestrarhæð og flétta þær þannig saman útivist, samverustundir fjölskyldunnar og lestrarhvatningu. Sumar bækurnar munu foreldrar kannast við frá því í bernsku, aðrar eru nýlegar og þekktar meðal barnanna.

Ýmsir komu að verkefninu og vinnslu þess. Fyrst má nefna lista- og menningarráði Kópavogs sem veitti styrk fyrir grunnkostnaði og gott betur en það. Færir bókasafnið ráðinu kærar þakkir fyrir. Rithöfundum og Barnabókasetri Íslands þökkum við fyrir gott samstarf og ekki má gleyma hönnuðum járnbókanna þeim Hermanni Arasyni hjá Prentsmiðjunni.is og Halldóri Sigurgeirsyni stálsmiði.

Hér má sjá lista yfir bækurnar í lestrargöngunni:

Axlabönd og bláberjasaft, Sigrún Eldjárn

Aþena (ekki höfuðborgin í Grikklandi ;), Margrét Örnólfsdóttir

Ballið á Bessastöðum, Gerður Kristný

Benjamín dúfa, Friðrik Erlingsson

Blíðfinnur og svörtu teningarnir: ferðin til Targíu, Þorvaldur Þorsteinsson

Bókasafn ömmu Huldar, Þórarinn Leifsson

Brúin yfir Dimmu, Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson

Elías, Auður Haralds og Valdís Óskarsdóttir

Fíasól í hosiló, Kristín Helga Gunnarsdóttir

Flugan sem stöðvaði stríðið, Bryndís Björgvinsdóttir

Fugl í búri, Kristín Loftsdóttir

Galdur steinsins, Heiður Baldursdóttir

Grasaskeggur: saga fyrir börn og unglinga, Indriði Úlfsson

Kossar og ólífur, Jónína Leósdóttir

Kristófer, Marta Hlín Magnúsdóttir og Birgitta Elín Hassel

Krókódílar gráta ekki, Elías Snæland Jónsson

Mamma klikk!, Gunnar Helgason

Með bómull í skónum, Iðunn Steinsdóttir

Nonni og Selma: fjör í fyrsta bekk, Brynhildur Þórarinsdóttir

Nonni, Jón Sveinsson

Núll núll 9, Þorgrímur Þráinsson

Peð á plánetunni Jörð, Olga Guðrún Árnadótir

Randalín og Mundi, Þórdís Gísladóttir

Sagan af bláa hnettinum, Andri Snær Magnason

Sjáumst aftur…, Gunnhildur Hrólfsdóttir

Sossa sólskinsbarn, Magnea frá Kleifum

Steinskrípin: hryllingsævintýri, Gunnar Theodór Eggertsson

Stelpurokk, Bryndís Jóna Magnúsdóttir

Sænginni yfir minni, Guðrún Helgadóttir

Vetrarfrí, Hildur Knútsdóttir

Vítahringur: Helgusona saga, Kristín Steinsdóttir

Þín eigin þjóðsaga, Ævar Þór Benediktsson