Myndlistarsýning – SLIT

Ingibjörg Huld Halldórsdóttir opnar sýningu á verkum sínum á aðalsafni Bókasafns Kópavogs laugardaginn 6. janúar kl. 15. Sýningin inniheldur krosssaumsverk og blekteikningar á pappír. Við opnun sýningarinnar verður einnig hægt að bera augum gipsafsteypur.

Viðfangsefni sýningarinnar er leikur listamannsins sem liggur á milli hins hlutbundna og óhlutbundna, á milli hversdagsleikans og dagdraums. Þrátt fyrir einfalda umgjörð eru verkin margslungin og leitast á við að bjóða ímyndunarafli áhorfandans upp í dans.

Myndlistarmaðurinn Ingibjörg Huld Halldórsdóttir er fædd og uppalin í Borgarfirði. Hún lærði arkitektúr í Kaupmannahöfn og Lyon í Frakklandi, og hefur unnið sem arkitekt og hönnuður samhliða listsköpun. Hún hefur tekið þátt í bæði einka- og samsýningum ytra og hér heima.

Sýningin stendur yfir til 3. febrúar.

Nánari upplýsingar veitir Ragna Guðmundsdóttir ragnag@kopavogur.is