Rússlandsdeildin 10 ára

Fimmtudaginn 3. apríl var haldið upp á tíu ára afmæli Rússlandsdeildar Bókasafns Kópavogs. Sigrún Guðnadóttir, forstöðumaður Lindasafns, bauð fólk velkomið fyrir hönd safnsins og Alexey Viktorovich Shadskiy ,staðgengill rússneska sendiherrans, ávarpaði samkomuna bæði á rússnesku og íslensku.

Því næst tók við bókmenntakynning á íslensku og rússnesku. Rithöfundarnir Gerður Kristný og Ólafur Gunnarsson lásu úr bókum sínum Blóðhófnir og Meistaraverkið, en Natalia Kovachkina hefur undanfarið unnið að þýðingu þeirra verka.

Að lokum söng barnakór undir stjórn Liubov Rivina. Að hátíðinni lokinni var boðið upp á afmælisköku og te úr rússneskum samovar.

Afmælishátíðin var vel sótt, enda á Rússneska deildin á Bókasafni Kópavogs marga velunnara. Margar fjölskyldur sækja hér reglulega sögustundir yfir vetrartímann, taka þátt í jóla- og páskaföndri, eru nemendur í Rússneska barnaskólanum eða þátttakendur í kvennaklúbbnum.

Deildin hefur líka notið velvildar ýmissa aðila í gegnum tíðina, en þega deildin var stofnuð voru í kringum 200 bækur sem Rússneska sendiráðið færði Bókasafni Kópavogs að gjöf. Síðan þá hafa margir lagt hönd á plóginn og deildin telur nú yfir 1000 bækur.