Sögustund á Lindasafni – Fróði og allir hinir gríslingarnir

„Í húsinu á horninu á heima skrýtið fólk…“ er upphafssöngur leikritsins Fróði og allir hinir gríslingarnir eftir Ole Lund Kirkegaard sem Leikfélag Kópavogs frumsýndi í byrjun mars. Í téðu húsi búa ástsjúkar ungfrúr, geðstirður karl og kátir krakkar sem finna upp á ýmsu sem fullorðna fólkinu finnst að þau ættu bara alveg að láta eiga sig. En þegar skelfileg innbrotaalda ríður yfir er brýnt að allir snúi bökum saman og klófesti þjófinn á hlaupahjólinu! Og þá reynast Fróði og félagar betri en enginn.

Leikarar úr sýningunni um Fróða og félaga hans verða í sögustund á Lindasafni mánudaginn 16. apríl. Lesið verður úr bókinni eftir Ole Lund Kirkegaard og sungnir verða söngvar úr leikritinu.

Allir velkomnir og aðgangur er ókeypis.

Sögustundin hefst kl. 16:30.

Nánari upplýsingar veitir Aðalheiður Erla Jónsdóttir adalheidurerla@kopavogur.is